Kalt sérrí

Spánarmyndin hér á bloggsíðunni er frá ferðalögum mínum um Andalúsíu. Ég skrifaði ferðahandbóki um þetta stórskemmtilega hérað fyrir nokkrum árum og af þeim sökum var ég beðinn um að sjá um spænska vínkynningu á alþjóðlegri ráðstefnu fólks í prentiðnaðinum (Xplor). Fyrir algera tilviljun varð sérríið sem framleitt er af Gonzales Byass verksmiðjunum fyrir valinu, það náðist samningur við heldsöluna. Sem var ákaflega heppilegt fyrir mig því ég er ekki beinlínis það sem kalla mætti vínsérfræðingur, hef bara þennan hæfilega áhuga sem millistéttarmenn á borð við mig hafa efni á að koma sér upp og svo man ég aldrei nein vínnöfn stundinni lengur. Ég held mig við nokkrar traustar tegundir og læt það duga. Einstaka sinnum dett ég niður á gott vín og ætlar aldeilis að muna eftir því í næstu ferð í ríkið... en svo lendir maður líka á sérdeilis vondum vínum og ætlar aldeilis að muna eftir því... þið sjáið hvert ég er að fara með þetta.

En Tio Pepe þekki ég og dýrka, það er stórgóður drykkur sem er bestur ískaldur. Eftir gerð ferðahandbókarinnar er ég uppfullur af fróðleik um sérrí og honum gat ég því miðlað til prentiðnaðarins á dögunum. Ég heimsótti bódeguna þeirra í Jerez og drakk í mig sögu og hefðir og framleiðsluferlið og þó ég hafi einnig komið í viskýeimunarstöð í Skotlandi og nokkur brugghús (margar sögur tengdar þeim heimsóknum) þá er ég sérlega heitur trúboði sérrídrykkjunnar vegna þess að mér finnst þetta vera vanmetinn og misskilinn drykkur.

SpánnPP21

Númer eitt, þurrt ljóst sérrí á borð við Tio Pepe á að bera fram kalt.

Númer tvö, sérrí er gott með tapas smáréttunum sem voru bókstaflega fundnir upp sem viðbit með því.

Númer þrjú, það myndi stórbæta íslenskar fermingarveislur ef þar væri borið fram kalt og þurrt sérrí með kökunum en ekki kalt og þunnt kaffi.

Sérrífyrirlesturinn tókst í alla staði vel, það hjálpaði að áheyrendurnir gátu drukkið eins mikið af umræddu drykk og þá lysti og var ég ánægður með að fá alveg jafn margar spurningar og hinir raunverulegu fyrirlesararnir á ráðstefnunni í pallborðsumræðunum sem fylgdu í kjölfarið. Ekki svo að skilja að ég sé ekki raunverulegur en vínkynningin var bara svona léttur útúrdúr og grín eftir mörg fróðleg og ákaflega fagleg erindi.

Leiðsögubókin um Andalúsíu hefur ekki beinlínis selst á við Arnald en ég hef hitt lesendur mína á förnum vegi og voru þeir ánægðir með bókina, báðir tveir. Svo frétti ég af hjónum sem voru á ferð um Andalúsíu og fóru í einu og öllu eftir bókinni allt uns henni var stolið af þeim á einstigi upp til fjalla. Þau höfðu greinilega ekki lesið kaflann sem varar við vasaþjófum!


Nick Cave og Ondaatje

Þar sem ég sá að Helgi Snær starfsfélagi minn bloggaði um Nick Cave sem hann sá með tvo ódæla krakka í nepjunni í Reykjavík um helgina þá ætla ég að bæta einni sögu af ferðum kappans á Íslandi við þann annál. En fyrst kemur forsaga málsins því fyrir rúmu ári síðan fór ég til Brighton að taka viðtal við Cave fyrir Morgunblaðið. Cave kom of seint í viðtalið og var það ekki vegna þess að hann væri svo mikil stjarna og rokkari, nei hann var eins og hver önnur ofurhetja að bjarga stúlku sem var föst í lyftu og var hann frekar ánægður með það dagsverk og við hófum viðtalið á að ræða lyftubjörgunartækni í þaula.

Nú, svo gerist það um helgina að konan mín sem er bókmenntafræðingur fær þann starfa að kynna rithöfundinn Michael Ondaatje fyrir áhorfendum í Salnum í Kópavogi. Ondaatje er trúlegast þekktastur fyrir bók sína The English Patient en hann hefur ritað margar skemmtilegar bækur, t.d. eina skáldsögu um kúrekann og byssubófann Billy The Kid. Kvöldið fyrir upplesturinn í Salnum förum við skötuhjúin út að borða með Ondaatje því við hittum hann í hanastélsboði í kanadíska sendiráðinu og eftir þá skyldu kom í ljós að hann átti laust kvöld og vildi endilega fara eh. út að borða. Á veitingastaðnum Einari Ben situr síðan Nick Cave í mestu makindum. Nú, eins og Helgi Snær segir í sínu bloggi þá finnst trúlegast mörgum stjörnunum einmitt fínt að koma til Íslands sökum þess að fáir abbast upp á þær og hér þurfa þær ekki lífverði til að losna við eiginhandaráritunarkvabbið.

 Ég hefði ekki farið að kássast upp á Cave ef konan hans hefði ekki einmitt staðið upp frá borðum til að fara með börnin á klóið og ef þau hefðu ekki verið milli rétta og ef ég hefði ekki verið með Michael Ondaatje í eftirdragi... en þar sem allt þetta gerðist þá vatt ég mér að honum og fór að rifja upp hetjudáð hans í lyftubjörgunaratriðinu í Brighton og jú víst mundi hann eftir því og svo fórum við að rifja upp lyftubjörgunartækni, hvað hentar best hverju sinni og hvað slökkviliðið sé nú lengi að drattast á staðinn og svona gengur hjalið uns ég átta mig á stað og stund og segi þá sí svona hvort ég megi ekki kynna félaga minn (sem ég hitti sjálfur í fyrsta sinn fyrir einni og hálfri klukkustund) hann Michael Ondaatje, (Það er ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að segja ,,May I introduce you two gentlemen? Mr Cave, Mr Ondaatje. Mr Ondaatje, Mr Cave).

þá er eins Cave sé stunginn af ástralskri gaddaskötu, hann stekkur á fætur og stamandi og tafsandi segist hann vera mikill aðdáandi, sérstaklega dýrkar hann bókina um Billy The Kid og Ondaatje er álíka sleginn af frægð viðmælandans og segir að kúrekakvikmyndin hans Cave sé alveg frábær. Þeir spjalla síðan stuttlega um dvöl sína á Íslandi og við segjum skilið við rokkarann og förum og fáum okkur sæti þar sem Ondaatje tjáir okkur að börnin hans muni trúlegast falla í ómeginn þegar hann segir þeim frá þessum fundi. Ondaatje er ákaflega hæglátur og kurteis maður sem blaðrar ekki einhverja vitleysu að óþörfu, hann er alveg jafn svalur og Cave. Það kemur í ljós að hann er gríðarlega mikill aðdáandi Cave og þylur upp uppáhalds plötur og bækur kappans.

Þess ber að geta að á meðan á þessu gekk þá var Gunn, konan mín upptekin við að leiðbeina barnapíunni um notkun sjónvarpsfjarstýringarinnar, en hún náði í lokin á stjörnufundinum og Cave  sem var rjóður í kinnum af ondaatjeæsingi skók á henni spaðann ótt og títt.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband